Vatns­mýri, 102 Reykjavík

Vatnsmýri, 102 Reykjavík

Vatnsmýri, 102 Reykjavík

Hafnarhús

-

Sýning á 136 tillögum sem bárust í hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar. Fyrr um daginn verða kynntar á sama stað niðurstöður úr hugmyndasamkeppninni og verðlaun afhent þeim sjö tillögum sem þóttu skara fram úr. Um kvöldið, kl.

20:00, munu uppboðshaldarar taka Hafnarhúsið yfir og efna til uppboðs á lóðum í Vatnsmýrinni þar sem fólki gefst færi á að festa sér afmarkaða lóð samkvæmt skipulagi vinningstillögunnar.

Engar kvaðir fylgja þátttöku í uppboðinu, heldur er um að ræða hressandi leik þar sem búast má við mikilli samkeppni um bestu bitana. Keppnin hófst í lok mars 2007 og var þátttaka heimil fagfólki í arkitektúr og skipulagi um allan heim. Mikill áhugi reyndist vera á keppninni enda óvenjulegt að kallað sé eftir hugmyndum um svo stórt svæði nálægt miðbæjarkjarna höfuðborgar. Alls bárust 136 tillögur víðs vegar að úr heiminum.

Keppendur höfðu aðgang að umfangsmiklum gögnum um skipulagsforsendur svæðisins, ásamt skýrslum um samráð við borgarbúa og hagsmunaaðila um þá möguleika sem Vatnsmýri kynni að bjóða upp á. Í forsendum var ekki tekin afstaða til þess hvort flugvöllur væri áfram á svæðinu heldur kallað eftir hugmyndum um þróunarmöguleika.

Dómnefnd var skipuð þremur borgarfulltrúum og fjórum valinkunnum fagmönnum á sviði skipulags og uppbyggingar.

Formaður dómnefndar var Dagur B. Eggertsson en auk hans sátu í dómnefnd borgarfulltrúarnir Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson. Aðrir í dómnefnd voru Joan Busquets, prófessor í borgarskipulagi við Harvard háskóla, fyrrum skipulagsstjóri í Barcelona og arkitektarnir Steve Christer, Reykjavík, Kees Kaan, Rotterdam og Hildebrand Machleidt, Berlín en Busquets og Machleidt hafa langa reynslu af skipulagi stórra borgarhluta, m.a. svæða þar sem flugvellir hafa vikið fyrir byggð. Samhliða sýningunni er gefin út vegleg bók með öllum tillögum..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun