Skugga­drengur - Heimur Alfreðs Flóka

Skuggadrengur - Heimur Alfreðs Flóka

Skuggadrengur - Heimur Alfreðs Flóka

Hafnarhús

-

„Ég er eiginlega neyddur til að halda yfirlitssýningu á verkum mínum til þess að ganga frá þessum öpum í eitt skipti fyrir öll,” ritaði Alfreð Flóki á blað sem rak á fjörur rithöfundarins Sjóns og varð kveikjan að sýningunni Skuggadrengur – Heimur Alfreðs Flóka. Sýningarstjórnin er í höndum Sjóns en þetta er fyrsta yfirlitssýning á teikningum Flóka um langt skeið.

Verkin á sýningunni eru aðallega úr eigu Listasafns Reykjavíkur en þar verða í fyrsta skipti sýndar á einum stað sjálfsmyndir þær sem hann gerði í upphafi ferils síns. Einnig verður dregin upp mynd af umdeildri persónu listamannsins með hljóðritunum af viðtölum og úrklippum af eldfimum blaðagreinum sem ollu miklum usla á sínum tíma.

Staða Alfreðs Flóka í íslenskri myndlistarsögu er einstök. Hann sótti sér innblástur í aðferðir symbólisma og súrrealisma, í fræði dulspekinga og skálda, og veigraði sér ekki við að hneyksla meðborgara sína með þeim djörfu og ágengu viðfangsefnum sem þær dökku lindir fóstruðu.

Sýningin stendur til 10. maí en henni tengjast fjölmargir viðburðir sem fram fara á sýningartímanum með þátttöku Sjóns og ýmissa kunnra lista- og fræðimanna sem tengdust Alfreð Flóka á einn eða annan hátt. Meðal viðburða eru umræður um íslenskan symbolisma, greining á hugtakinu súrrealisma, ljóðalestur og fleira. Forsmekkur á viðburðaröðina verður við opnunina en þá verða lesin upp ljóð sem eru innblásin af listamanninum Alfreð Flóka..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun