Sérvizka Kjar­vals - Sögu­smiðja

Sérvizka Kjarvals - Sögusmiðja

Sérvizka Kjarvals - Sögusmiðja

Kjarvalsstaðir

-

Í sögusmiðjunni Sérvizka Kjarvals er sú tilgáta sett fram að uppátæki og hversdagslegar athafnir Jóhannesar Kjarvals hafi í raun verið gjörningar. Athafnir og uppátæki Kjarvals þóttu ögra íslensku samfélagi og borgaralegum gildum og almenningur furðaði sig á honum. Hann var sagður vera með trúðslæti, athyglissýki og hegða sér á ýmsan hátt andfélagslega.

Þeirri spurningu er velt upp hvort líta megi á athafnirnar Kjarvals sem hluta af skapandi vinnuferli hans og hvort þær hafi meðvitað listrænt inntak.

Hafði Kjarval ef til vill áhrif á frumtilraunir íslenskra listmanna með gjörningaformið á sjöunda áratugnum eða er hægt að skoða hegðunarmynstur Kjarvals í alþjóðlegu ljósi? Smiðja Kjarvalsstaða er ætluð börnum og fjölskyldufólki og tengist iðulega sýningum Kjarvalsstaða hverju sinni.

Tveir viðburðir eru á dagskrá smiðjunnar, 2. október og 5. nóvember. Í Sögusmiðjunni er unnið uppúr þekktum og birtum heimildum, safneign og skjalasafni Kjarvalsstaða en einnig rannsókn Hannesar Lárussonar um upphaf gjörningalistar á Íslandi frá árinu 1980, sem Gjörningaarkíf Nýlistasafnsins varðveitir.

Sögusmiðjuna leiðir myndlistarmaðurinn Huginn Þór Arason en hann stofnaði ásamt öðrum Gjörningaarkíf Nýlistasafnsins árið 2008. Huginn Þór er jafnframt einn þriggja umsjónamanna sérstakrar útvarpsdagsskrár í samvinnu við Nýlistasafnið og Ríkisútvarpið þar sem íslenskir gjörningalistamenn lýsa verki úr sínu ranni..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Huginn Þór Arason

Listamenn

Boðskort