Markmið Xl

Markmið Xl

Markmið Xl

Kjarvalsstaðir

-

Ímyndunaraflið hefur verið mikilvirkasta leiktæki drengja á öllum aldri í árþúsundir. Þannig hafa leggur og skel orðið að myndarlegum búsmala, trékubbar orðið að farskipum og flugvélum, og nokkrir einfaldir málmbútar að dularfullum framtíðartækjum og tólum til að sigra heiminn. Allt hefur virkað sem frekari hvati á drengi til að ímynda sér eitthvað enn meira framandi og furðulegt.

Með aldrinum fá flestir útrás fyrir áhuga sinn á tækjum og tólum í raunveruleikanum, og síðustu áratugir hafa verið gósentíð að þessu leyti; risajeppar, seglbretti og önnur óvenjuleg farartæki eiga sér dyggan aðdáendahóp, sem þreytist seint á að breyta, bæta, styrkja og búa til ný hlutverk fyrir þessi leikföng lífsgleðinnar.

Tækjamanía er orðin viðurkenndur lífsstíll.

Helgi Hjaltalín og Pétur Örn Friðriksson hafa unnið saman að því að færa þetta áhugamál inn á svið myndlistarinnar. Það hefur þeim tekist með því að smíða furðutæki af ýmsu tagi; farskjóta fyrir nær óhugsandi aðstæður, tæki og tól sem hafa vafasamt notagildi, og vélar sem geta varla sinnt hlutverki sínu.

Notagildið er ef til vill takmarkað, en "markmið"þeirra Helga og Péturs virðist oftar en ekki vera ferðalag - hvort sem það er ferð myndbandstökuvélar niður fjallshlíð eða ferðir ýmisskonar ökutækja, sem ímyndunaraflið knýr áfram. Af þessum ökutækjum skín bæði lífsgleði og glettni, nær stráksleg ánægja yfir því sem hægt er að gera, og þeim ferðalögum, sem þannig er hægt að leggja í..