Ingólfur Arnars­son: Jarðhæð

Ingólfur Arnarsson: Jarðhæð

Ingólfur Arnarsson: Jarðhæð

Hafnarhús

-

Sýnd eru ný verk eftir myndlistarmanninn Ingólf Arnarsson í A-sal Hafnarhúss. 

Ingólfur hefur verið áhrifamikill í íslensku listalífi allt frá því að hann lauk listnámi í Hollandi snemma á níunda áratugnum. Teikning hefur ætíð skipað veigamikinn sess í listsköpun hans en teikningar Ingólfs einkennast af fíngerðum línum, nákvæmni og tíma. Hann hefur jafnframt unnið verk á steinsteypu þar sem þyngd iðnaðarframleiddra eininga myndar undirlag næmra litatóna.

Á sýningunni í A- sal Hafnarhúss eru ný verk, nákvæmlega útfærð fyrir rými salarins. Segja má að verk Ingólfs séu aldrei einangruð fyrirbæri heldur ætíð hluti af úthugsaðri innsetningu og sýningarrými. Ingólfur hefur haldið sýningar bæði hér heima og erlendis, meðal annars voru haldnar einkasýningar á verkum hans á Kjarvalsstöðum árið 1996 og í hinni virtu listamiðstöð Chinati Foundation í Bandaríkjunum árið 1992. Eftir að hafa dvalið á Íslandi bauð stofnandi listamiðstöðvarinnar, myndlistarmaðurinn Donald Judd, Ingólfi að dvelja þar sem gestalistamaður. Þar hefur verið föst innsetning eftir Ingólf frá árinu 1992.

Sýningar á verkum Ingólfs eru hugsaðar út frá hverju rými fyrir sig og hafa sparleg en nákvæmlega úthugsuð verk hans verið kennd við mínímalisma. Greining á verkum Ingólfs er þannig tækifæri til að tengja verk íslensks samtímalistamanns við alþjóðlega hugmyndafræði samtímalistar þótt í því samtali verði til tvöfalt líf á mörkum minimalisma og hugmyndalistar sem á ríkan þátt í listsköpun Ingólfs. Á meðan mínímalisminn leitast við að tæma verkin af öllum vísunum út fyrir eigin form og efni, byggir hugmyndalistin á því að hlutgera hugmynd sem á sér uppruna annars staðar en í listaverkinu sjálfu. Í verkum Ingólfs á sér stað áhugaverð glíma listamannsins við hugmyndina um listaverkið sjálft. Ingólfur Arnarsson (f. 1956) lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og hélt þá til framhaldsnáms við Jan van Eyck listaháskólann í Hollandi 1979 – 1981. Á rúmlega 30 ára ferli hefur Ingólfur haldið sýningar bæði hér heima og erlendis. Auk sýninganna á Kjarvalsstöðum og í Chinati Foundation hafa verið haldnar einkasýningar á verkum hans í Safni árið 2005 og Hafnarborg 2013 auk þess sem hann hefur reglulega sýnt í Nýlistasafninu. Erlendis hefur hann meðal annars átt verk á sýningum í Center for Contemporary Non-Objective Art í Brussel árið 1999 og Drawing Center í New York árið 2007. Frá upphafi myndlistarferils síns hefur Ingólfur verið virkur skipuleggjandi sýninga á verkum íslenskra og erlendra listamanna bæði hér heima og erlendis. Hann var jafnframt einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7, sem var tilraunakenndur sýningastaður í Reykjavík seint á áttunda áratugnum, og virkur í starfi sýningarsalarins Önnur hæð sem starfræktur var í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn. Meðfram störfum að eigin myndlist hefur Ingólfur sinnt myndlistarkennslu og var deildarstjóri fjöltæknideildar Myndlista- og handíðaskólans 1983 – 1993 og prófessor við Listaháskóla Íslands 2000–2007..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Ólöf Kristín Sigurðardóttir

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort

Boðskort