Hildur Ásgeirs­dóttir Jóns­son: Úr iðrum jarðar

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson: Úr iðrum jarðar

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson: Úr iðrum jarðar

Kjarvalsstaðir

-

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson (f. 1963) hefur í rúm 15 ár sameinað málaralist og vefnað með því að búa til málverk ofin úr handlituðum silkiþráðum. Hún sækir efnivið sinn í íslenskt landslag og hefur t.d.

búið til myndraðir um Vatnajökul og Heklu. Á sýningunni má sjá úrval af þessum stóru málverkum sem ofin eru í þriggja metra breiðum vefstól. Þá verða einnig sýnd fjölmörg nýrri verk. Hildur kemur tvisvar á ári til Íslands og tekur ljósmyndir á gönguferðum sínum um landið. Hlutar úr þessum ljósmyndum – skuggar af fjallstindum eða jökulsprungur – eru einangraðir, klipptir út og stækkaðir.

Hildur vefur síðan þessar myndir á vinnustofu sinni í Cleveland.

Það er flókið ferli þar sem Hildur handlitar þræðina áður en hún fellir þá inn í vefinn. Í þessu ferli umbreytast frummyndirnar svo verkin virðast abstrakt eða minna á frumform á borð við lifandi frumur, grjót eða stjörnuþokur. Sýning Hildar er í tveimur hlutum. Hinn hluti hennar er sýndur í Tang-safninu í New York frá 17. ágúst til 29. desember 2013. Hildur hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna, þar á meðal hin virtu og eftirsóttu listaverðlaun Cleveland-borgar í Ohio-ríki í Bandaríkjunum og styrki frá Ohio Arts Council, auk þess sem hún vann opinber verk fyrir Cleveland Clinic-stofnunina.

Árið 2004 hlotnaðist Hildi sérstakur listamannsstyrkur frá Ohio Arts Council og sama ár var hún fengin til þess að vinna listaverk sem afhent voru verðlaunahöfum í listasamkeppni ríkisstjórans í Ohio það árið. Hildur hefur sýnt víða, meðal annars í Samtímalistasafninu í Cleveland, William Busta-galleríinu í Cleveland og fjölmörgum galleríum og söfnum á Íslandi. Mörg söfn eiga verk eftir hana, m.a. Listasafnið í Cleveland, Listasafn Reykjavíkur, The Progressive Insurance Collection og Cleveland Clinic-stofnunin.

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson fæddist í Reykjavík en hefur búið í Cleveland í þrjátíu ár. Hún lagði stund á nám í arkitektúr frá 1983 til 1985 við Kent State-háskólann áður en hún sneri sér að myndlistarnámi við Cleveland Institute of Art. Eftir það lauk hún BFA-gráðu árið 1991 og MFA-gráðu 1995 við Kent State-háskólann..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Hafþór Yngvason

Listamenn

Boðskort