Harro

Harro

Harro

Kjarvalsstaðir

-

Markmið sýningarinnar er tvískipt. Annars vegar að kynna finnska listamanninn Harro hér á landi og framlag hans til samtímalistar og hins vegar að vekja umræður um gagnrýnið inntak verka hans. Á sýningunni verður sjónum beint að popplistaverkum Harros frá 1968 til 1972 en þau ollu uppnámi þegar þau voru fyrst sýnd í Finnlandi.

Á sýningunni verða meðal annars verk byggð á finnska fánanum og á vörumerkjum alþjóðlegra fyrirtækja.

Verkin úr þessum myndaseríum veita góða innsýn í hugarheim Harros. Þau eru fengin að láni frá Listasafninu í Turku, Wainö Aaltonen-listasafninu, Kiasma-nútímalistasafninu í Helsinki og frá sjálfum listamanninum. Harro verður viðstaddur opnun sýningarinnar. Harro er mikilvægur í sögu norrænnar myndlistar en hefur fengið minni athygli hér á landi en hann verðskuldar. Verk hans eru nú í fyrsta skipti kynnt fyrir íslenskum áhorfendum í samstarfi við Listasafnið í Turku sem mun á móti kynna verk íslenska popplistamannsins Errós fyrir Finnum.

Harro og Erró hafa báðir lagt fram mikilvægan skerf til sögu samtímalistarinnar.

Verk þeirra vekja enn umræður og áhuga fræðimanna og veita listamönnum og öðrum í menningarlífinu innblástur. Það á sérstaklega vel við að sýna eldri verk Harros á hér á landi nú þegar Íslendingar eru smátt og smátt að ná áttum eftir efnahagshrunið 2008 og takast á við gagnrýnið endurmat á samfélagsgildum sínum og lífsháttum. Verkin í svína-syrpunni og Lífsmáta Finna tala til okkar þótt landamæri og áratugir skilji að.

Þær spurningar sem Harro varpar fram í fána-myndröðinni – götóttir fánar, fánar sem togna, bólgna, skreppa saman, rifna, sundrast, molna, bráðna eða brenna – eiga jafn vel við um íslenskan lífsmáta og finnskan. Kreppan í íslenskri þjóðarvitund í kjölfar hrunsins kallar á umræður á þeim gagnrýnu nótum sem Harro setur fram á svo einfaldan og ágengan hátt. Leikur Harros með vörumerki stórra olíufyrirtækja – Smeel, Essto, Gulp og BB – eiga enn við alls staðar og vekja spurningar um stöðu umhverfismála og alþjóðavæðingar. Sjálfsánægjuna og sinnuleysið sem Harro dregur fram í svína-syrpunni þekkja allir, ungir sem aldnir..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Listamenn

Boðskort