Frásagn­ar­mál­verkið - La Figuration Narrative

Frásagnarmálverkið - La Figuration Narrative

Frásagnarmálverkið - La Figuration Narrative

Hafnarhús

-

Verk frá 1961-1999. Á sýningunni „Frásagnarmálverkið" eru sýnd eru verk eftir hóp franskra listamanna sem urðu mjög áberandi þegar popplistin leit dagsins ljós á sjöunda áratugnum. Þeir spruttu upp úr vinstrisinnaðri hugmyndafræði þar sem mikil áhersla var lögð á raunsæi og skýr skilaboð sem tóku mið af ríkjandi pólitískum aðstæðum.

Með popplistinni varð uppgjör við hina vinstrisinnuðu hugmyndafræði og hópur listamanna kaus að fara nýjar leiðir.

Í sköpunarferli listaverksins notfæra þeir sér vel þekkt myndefni úr fjölmiðlum, stjórnmálum og neyslusamfélaginu, eins og sjá má í málverkum, ljósmyndum og myndum gerðum með blandaðri tækni og tölvutækni, auk annars.

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eiga það sammerkt, þrátt fyrir ólíkan uppruna og hugsunarhátt, að franskir gagnrýnendur og safnstjórar spyrtu verk þeirra saman sem „fígúratífa frásagnarlist".„Fígúratíf frásögn" var ekki hreyfing í hefðbundunum skilningi, heldur miklu frekar hópur vina og kunningja með nokkur sameiginleg áhugamál, en fá sameiginleg markmið. Þeir höfðu gagnrýnið viðhorf til þess veruleika sem þeir voru hluti af, veruleika sem þá var orðinn leiksoppur vitundariðnaðarins og auglýsingaaflanna.

Í heildina séð voru viðhorf „frásagnarmanna" til þessara afla önnur en starfsbræðra þeirra vestan hafs, bandarísku popplistarmannanna, sem voru þeim samferða í tíma. Bandarísk popplist fékkst yfirleitt við yfirborð hlutanna, formræna eiginleika þeirra, hvort sem um var að ræða teiknimyndir, ljósmyndir eða aðra „framleiðslu". Úr þessum aðföngum bjuggu þeir til verk sem voru í eðli sínu kyrrstæð - statísk - gáfu hvorki til kynna hreyfingu eða innbyrðis þróun. Þau voru öll þar sem þau voru séð.

„Frásagnarmenn" höfðu tilhneigingu til að nýsast fyrir um sjálf aðföngin, taka þau til rannsóknar í því skyni að svipta hulunni af raunverulegri merkingu þeirra í samtímanum, listrænni, félagsfræðilegri og pólitískri. Þær aðgerðir höfðu í för með sér ýmsa hagræðingu á myndefninu, jafnvel beina skrumskælingu þess, sem gerði aftur talsverðar kröfur til áhorfandans.

Án þess að einfalda hlutina allt of mikið má segja að verk amerísku popplistamannana, með nokkrum undantekningum, hafi látið allt uppi um innihald sitt í einni sjónhendingu. Verk „frásagnarmanna" voru gjarnan margbrotin, lágu ekki ljós fyrir, fyrr en áhorfandinn var búinn að tengja myndbrotin saman í huganum..

Myndir af sýningu

Ítarefni