Einar Hákon­ar­son: Púls tímans

Einar Hákonarson, Kveðjustund

Einar Hákonarson: Púls tímans

Kjarvalsstaðir

-

Málverkin á yfirlitssýningu Einars Hákonarsonar spanna feril listamannsins allt frá æsku- og skólaverkum og til ársins 2014. Verkin eru valin með það fyrir augum að sýningargestir geti með tiltölulega auðveldum hætti lesið sig í gegnum þróunina sem átt hefur sér stað í verkum hans. Skipulagi og uppsetningu sýningarinnar er einnig ætlað að hjálpa til við þann lestur.

Yfirskrift sýningarinnar; Púls tímans, er jafnframt heiti á einu verki á sýningunni og vísar sömuleiðis til vilja listamannsins til að hafa fingurinn á púlsi tímans.

Sýningarstjóri er Ingiberg Magnússon.

Einar hefur allt frá heimkomu frá námi í Valand listaháskólanum í Gautaborg verið mjög virkur í listsköpun, á sýningavettvangi og jafnframt í myndlistarkennslu um árabil. Hann hefur einnig tekið þátt í umræðu um þjóðfélagsmál og stöðu lista í samfélaginu.

Einar hefur alla tíð verið afkastamikill myndlistarmaður og sömuleiðis á sýningarvettvangi, þrátt fyrir að hafa gegnt öðrum annasömum störfum, m.a. verið kennari og skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands og forstöðumaður Kjarvalsstaða.

Málarinn /maðurinn í forgrunni.
Á fyrstu einkasýningu Einars í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1968 varð ljóst að nýr tónn var sleginn í íslenskri myndlist. Manneskjan hafði tekið sér stöðu í forgrunni myndverkanna eftir alllanga fjarveru í því hlutverki. Expressjónísk málverk með áhrifum frá evrópskri popplist þess tíma.

Greinilegust voru áhrifin frá expressjónistanum Frances Bacon sem var á meðal framsæknustu myndlistarmanna þess tíma.

Myndverk Einars einkenndust af þaulhugsaðri myndbyggingu og kraftmikilli teikningu þar sem formum mannslíkamans var beitt sem andstæðu gegn manngerðu umhverfi. Áhugavert er að velta fyrir sér hlutverki persónanna í myndverkum Einars á þessum tíma. Fljótt á litið virðist hlutverk þeirra fyrst og fremst hafa verið formrænt, að tefla mjúkum lífrænum formum gegn hörðum og byggja upp klassíska spennu innan myndflatarins. Vissulega sígild afstaða og hvergi slegið af í kröfum til myndbyggingar og annarra klassískra gilda.

Sjöundi áratugur síðustu aldar var tími mikilla sviptinga. Umdeildar styrjaldir geisuðu og voru því áleitnari en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma varð fréttaflutningur hraðari og færði óhugnaðinn nær hverjum og einum og vakti nístandi samviskuspurningar. Eðlilegt verður að telja að ungum og leitandi listamanni sem var að staðsetja sjálfan sig á vettvangi listarinnar hafi þótt tómahljóð í því að manneskjan, miðpunktur og fórnarlamb í atburðarásinni væri ekki fastagestur í sköpunarverkum hans. Myndverk Einars frá þessum tíma endurspegla þannig býsna vel hugsanir kynslóðar sem var óörugg um framtíð sína og leitaði ákaft að fótfestu.

Ýmsum þótti litanotkun Einars fábrotin og átakalítil á þessum tíma og kölluðu eftir meiri áræðni í þeim efnum. Eflaust má til sanns vegar færa að hann hafi verið óþarflega varfærinn í litameðferð eins og í ljós kom þegar hann tók að einbeita sér að þeim þáttum málverksins samhliða því að verk hans og viðfangsefni urðu tjáningarríkari og afdráttarlausari í afstöðu.

Hvort það var fyrir áhrif frá myndverkum Einars eða tíðarandanum, sem jafnan er áhrifamesti gerandinn í framvindu lista, skal ósagt látið en svo mikið er víst að fljótlega fór að bera á svipuðum viðhorfum í verkum annarra íslenskra myndlistamanna, jafnvel eldri abstraktmálara.

Um 1980 og í byrjun 9. áratugarins urðu miklar breytingar í listsköpun Einars sem hafa þróast óslitið síðan. Tjáningarrík og kraftmikil pensilskrift tók við af af áður fremur beislaðri og agaðri teikningu. Litaskalinn varð sömuleiðis áræðnari og átakameiri. Augljóst var að listamanninum lá meira á hjarta en nokkru sinni fyrr, aðferðir hans og stílbrögð urðu samhliða því vel til þess fallin að koma undirliggjandi tilfinningahita til skila. Myndverk hans frá síðustu áratugum eru mjög afdráttarlaus í framsetningu og hlaðin merkingu og frásögn. Eftir árið 2000 varð samfélagsleg ádeila meira áberandi en nokkru sinni fyrr í málverkum hans, beinskeytt og hispurslaus. Fingurinn á púlsi tímans næmari og uppgjör við undangengið átakatímabil, sem vikið er að annars staðar í þessum inngangi, orðinn þungamiðja myndverka hans á hárbeittan og opinskáan hátt.

Byggt á texta Ingibergs Magnússonar sýningarstjóra..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Ingibergur Magnússon

Listamenn

Sýningarskrá JPG