D26 Arnfinnur Amazeen: Undir­sjálfin vilja vel

Undirsjálfin vilja vel

D26 Arnfinnur Amazeen: Undirsjálfin vilja vel

Hafnarhús

-

Arnfinnur Amazeen  (f. 1977) er þriðji listamaðurinn til að sýna í D-salnum árið 2016. Í verkum sínum fæst Arnfinnur við hversdagsleikann í samtímanum og mótsagnakennt hlutverk manneskjunnar innan hans.

Arnfinnur veltir því fyrir sér hvernig manneskjan bregst við þeim hættum sem steðja að henni og hvað það er sem ræður viðbrögðum manneskjunnar.

Henni er kannski ekki alltaf sjálfrátt. Hægt er að hugsa sér að sjálfið skiptist í undirsjálf – annars vegar fullorðin og yfirveguð undirsjálf, sem ættu að vera ráðandi, og hinsvegar í barnalegri undirsjálf sem skjótast stundum fram og framkalla viðbrögð sem eru ekki endilega rökrétt. Á sýningunni fjallar Arnfinnur um viðbrögð manneskjunnar við ógnum. Listamaðurinn telur að áherslan sem margir leggja á að rækta sál og líkama sé viðbragð við þeim hættum sem við teljum okkur búa við. Sannleikurinn er hinsvegar sá að í vestrænu samfélagi eru hætturnar nánast engar, ef miðað er við þá sem til dæmis þurfa að búa við stríðsógn, hungursneyð og faraldra banvænna sjúkdóma.

Samt er stöðugt hamrað á því í fjölmiðlum og víðar hvað gæti gerst, hvort sem það er hryðjuverkaógn, bráðnun jökla, svínaflensa eða hrun efnahagskerfisins. 

Manneskjan leggur því mikið á sig til þess að vera besta útgáfan af sjálfri sér, hugar að andlegri og líkamlegri heilsu og setur sér allskyns reglur og viðmið til þess að standast betur það sem koma skal. Í stað þess að treysta á samtakamátt samfélagsins og verjast saman, stendur manneskjan nú ein í því að verja sig sjálfa.

Arnfinnur hefur byggt einskonar brynju eða virki úr mjúku og náttúrulegu efni sem varið með oddhvössum hlutum hið ytra. Í virkinu er hljóðverk sem gestum er boðið að hlusta á. Í kring eru svo textaverk. 

Arnfinnur lauk MFA gráðu frá Glasgow School of Art árið 2006 og BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2001. Af nýlegum einkasýningum Arnfinns  má nefna „Kollektive“ í Grafikernes Hus, „Self“ í Værelse 101 í Kaupmannahöfn og „Myrkrið borið inn (á ný)“ í Kling og Bang Reykjavík. Síðasta einkasýning Arnfinns hér á landi var „Gríman er andlitið“ í Kunstschlager árið 2014. Arnfinnur býr og starfar í Kaupmannahöfn. Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2016 eru áætlaðar alls fimm sýningar í sýningaröðinni..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Bryndís Erla Hjálmarsdóttir

Listamenn

Boðskort