Blik

Blik

Blik

Kjarvalsstaðir

-

Fjölmargir listamenn hafa skírskotað til op-listarinnar í verkum sínum en á sýningunni eru sýnd verk eftir átta íslenska listamenn sem á einn eða annan hátt beita sjónhverfingum eða leika sér með upplifun áhorfandans í verkum sínum. Sýningin hverfist um myndlistarkonuna Eyborgu Guðmundsdóttur (1924 -1977), sem lítið hefur borið á í íslensku listalífi.

Eyborg aðhylltist geómetriska abstraktion en margir gætu kannast við glerverk hennar í glugga Mokka, sem hefur hangið á sama stað í rúma fjóra áratugi, eða frá því að Eyborg hélt þar sýningu árið 1966. Eyborg nam myndlist í París og sýndi víða um Evrópu í hópi áhrifamikilla listamanna sem kölluðust Group Mesure.

Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1965, en síðasta sýning hennar var tíu árum síðar í Norræna húsinu.

Auk verka Eyborgar eru sýnd ný og eldri verk Arnars Herbertssonar, verk Jóns Gunnars Árnasonar, Gravity sem hann sýndi á Feneyjatvíæringnum árið 1982, Litasvið og teikningar eftir Ólaf Elíasson og ný og eldri verk Helga Þorgils Friðjónssonar. Einnig eru til sýnis verk eftir Hrein Friðfinnsson, Hörð Ágústsson og pop-op verk eftir JBK Ransu. Sýningarstjóri er Helgi Már Kristinsson, en hann verður með leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 13. september. Op-listin á rætur að rekja til miðrar síðustu aldar.

Op er dregið úr orðinu optical sem þýðir blik.

Í oplistinni er áhersla lögð á samband áhorfandans og listaverksins og gerð er tilraun til að breyta skynjun áhorfandans með framsetningu lita, forma og ljóss. Verkið myndar þannig hreyfingu út frá ólíku sjónarhorni áhorfandans. Bliksmiðja verður opnuð í norðursal á sama tíma en um er að ræða fjölskylduvæna og fræðandi listsmiðju. Þar er hægt að spreyta sig á skemmtilegum verkefnum, sem tengjast blik-list, sjónblekkingum og vísindum. Hópar eru velkomnir en þurfa að bóka tíma hjá safninu.

Í tengslum við sýninguna er haldin fjölskylduvæn og fræðandi listsmiðja, "Blik-smiðja," í Norðursal þar sem er hægt að spreyta sig á skemmtilegum verkefnum, sem tengjast bliklist, sjónblekkingum og vísindum..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun