Annað auga - Ljós­mynda­verk úr safneign Péturs Arasonar og Rögnu Róberts­dóttur

Annað auga - Ljósmyndaverk úr safneign Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur

Annað auga - Ljósmyndaverk úr safneign Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni er notkun ljósmynda í alþjóðlegri og íslenskri samtímamyndlist skoðuð út frá sextíu völdum ljósmyndaverkum úr safneign þeirra. Ljósmyndaverkin á sýningunni gefa góða mynd af þeim áherslum, straumum og stefnum, er birst hafa í ljósmyndaverkum innlendra og erlendra samtímamyndlistarmanna frá síðari hluta 7. áratugarins fram til dagsins í dag.

Áhersla er lögð á að gera skil mörgum þeim íslensku myndlistarmönnum sem nota ljósmyndir í verkum sínum og skoða verk þeirra í samhengi við ljósmyndaverk í samtímalistum.

Jafnframt er lögð áhersla á að sýna breiða og fjölbreytilega notkun ljósmynda í myndlist og varpa ljósi á ólíka afstöðu til notkunar miðilsins og möguleika hans.

Yfir helmingur ljósmyndanna á sýningunni eru teknar af listamönnunum sjálfum þótt fæstir búi þeir yfir sérþekkingu á ljósmyndun eða líti á sig sem ljósmyndara. Myndirnar spanna vítt svið, frá því að vera ferðasögu-snöggmyndir af nánasta umhverfi listamannsins yfir í að vera sviðsett portrett, formrænt sjónarhorn á hversdagslega hluti, tíma-frystir gjörningar eða kyrralífsmyndir. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2010.

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir

Í tengslum við sýninguna er Camera Obscura (myrkt herbergi) sett upp í Norðursal Kjarvalsstaða. Camera Obscura er ákveðin sjónhverfing sem virkar þannig að ef það er algjört myrkur inn í herbergi en pínulítið gat sem hleypir ljósi inn í það, þá birtist mynd á vegg af því sem er fyrir utan herbergið -- á hvolfi!.

Myndir af sýningu