Síðustu dagar þriggja sýninga í Hafnarhúsi | listasafnreykjavikur.is

Síðustu dagar þriggja sýninga í Hafnarhúsi

Erró: Því meira, því fegurra í Hafnarhúsi

Nú eru að verða síðustu forvöð að sjá sýningarnar Erró: Því meira, því fegurraTak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku og D33 Anna Fríða Jónsdóttir: Tónn. Síðasti sýningardagur þeirra er annar í hvítasunnu á mánudag 21. maí.

Erró: Því meira, því fegurra
Á þessari sýningu er varpað sérstöku ljósi á verk Errós sem byggjast á ofgnótt og ofmettun. Slík myndgerð hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í listsköpun hans og má rekja aftur til ungdómsverka hans. Meira en þrjátíu verk úr Errósafni Listasafns Reykjavíkur – málverk, klippimyndir og kvikmyndir – sýna hvernig listamaðurinn skapar flóknar og hlaðnar myndbyggingar, sem miðla myndefni tengdu stjórnmálum, vísindum, skáldskap og listasögu.

Segja má að samtíminn hafi opnað nýja gátt að verkum Errós. Nú á tímum veraldarvefsins, photoshop og gúglaðrar hnattvæðingar hafa tilvísanir hans í gagnagrunna, klipp-og-lím aðferðir, mynda- og upplýsingaflæði öðlast uppfærða merkingu.

Tak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku
Listasafn Reykjavíkur minnist aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í ár með því að bjóða myndlistarmönnum frá Danmörku að sýna í safninu. Viðfangsefni þeirra tengjast meðal annars hugmyndum um síð-nýlendustefnu, fólksflutninga, sjálfsmynd þjóða og landamæri. Nú þegar Íslendingar minnast þess að þjóðin varð á sínum tíma frjáls undan stjórn Danmerkur býðst sérstakt tækifæri til þess að gefa þessum krefjandi málefnum gaum.

Mikil gerjun á sér stað í danskri myndlist, ekki síst í ljósi breyttrar heimsmyndar í pólitísku og samfélagslegu tilliti. Þær hræringar endurspeglast í allri listsköpun og gestir fá innsýn í þær í nýjum verkum frá frændum okkar og fyrrum herraþjóð Íslendinga. Dönsku listamennirnir eru Jeannette Ehlers, Jesper Just, John Kørner og Tinne Zenner. 

D33 Anna Fríða Jónsdóttir: Tónn
Á ferðalögum sínum hefur Anna Fríða leitað eftir samhljómi í umhverfinu, þar sem hún hlustar eftir einstökum tónum. Hún skoðar veröldina í kring um sig eins og úrval af hljóðfærum þar sem ýmislegt er í boði; pákur, píanó, bjöllur og strengir. Hún fangar þessar hljóðbylgjur og býr þeim til form í verkum sínum.

Í verkinu Tónn speglar Anna Fríða þessar hugleiðingar sínar í náttúrunni og gerir tilraun til að hluta niður heildina. Henni er í mun að gefa hverri gáru á vatninu pláss til að mynda heildstæðan hring sem þenst út og stækkar á jöfnum hraða þar til hann rennur saman við yfirborðið.