Síðustu dagar sýningarinnar Innrás I í Ásmundarsafni | listasafnreykjavikur.is

Síðustu dagar sýningarinnar Innrás I í Ásmundarsafni

Síðustu dagar sýningarinnar Innrás I í Ásmundarsafni.

Sýningunni Innrás I eftir Guðmund Thoroddsen í Ásmundarsafni lýkur sunnudaginn 15. apríl.

Fjórum listamönnum hefur verið boðið að gera innrás í sýninguna List fyrir fólkið í Ásmundarsafni á árinu 2018, þar sem verk myndhöggvarans eru skoðuð út frá ólíkum tímabilum á ferli hans. Völdum verkum hans er skipt út fyrir verk starfandi listamanna.

Guðmundur Thoroddsen var fyrsti listamaðurinn í röðinni. Hann hefur síðustu ár beint sjónum sínum á kómískan hátt að karlmennskunni og notað til þess meðal annars skúlptúra úr keramík og viði. Gróf form og efnisnotkun Guðmundar býður upp á áhugavert samtal við verk Ásmundar.

Þremur öðrum listamönnum hefur verið boðið að setja upp verk sín á sýningunni í einkasamtali við verk Ásmundar. Næst í röðinni er Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter og þar á eftir koma Margrét Helga Sesseljudóttir og Matthías Rúnar Sigurðsson. Öll vinna þau skúlptúra í ólík efni og veita verk þeirra áhugaverða sýn á þróun þrívíðrar myndlistar, efnisval og viðfangsefni.