Flökkusýning | listasafnreykjavikur.is

Flökkusýning

Flökkusýning

Fáðu Flökkusýningu frá Listasafni Reykjavíkur lánaða í skólann

Grunnskólum Reykjavíkur býðst að fá tvær flökkusýningar til láns í 2–3 vikur ásamt fræðslupakka og kynningu á mögulegri notkun sýninga og verkefna. Fræðslupakkarnir eru unnir af kennurum með bakgrunn í myndlist og listfræði og verkefnin tengd námskrám. Flökkusýningarnar eru í sérhönnuðum kistum á hjólum sem eru 180 cm á hæð, 70 cm á breidd og 165 cm á lengd þegar þær eru lokaðar. 

Þegar sýningin hefur verið sett upp er hver veggur um 235 cm á lengd. Hver sýning er í tveimur kistum sem raðast saman í u.þ.b. 10 metra af sýningarrými og rúmar um 8–12 listaverk, vel flest eftir íslenska myndlistarmenn.

Flökkusýning 1: Hvað er svona fyndið?

Verkefni í fræðslupakka eru ætluð og mið- og efsta stigi sem nýta má í mörgum fögum. Sýningin fjallar um hvernig húmor hefur ólíkar birtingarmyndir í myndlist. Húmor er margslungið menningarlegt fyrirbæri. Húmor er til í öllum samfélögum en það er ekki alltaf auðvelt að koma auga á brandarann. Á flökkusýningunni mætast húmor og myndlist í verkum eftir ýmsa íslenska listamenn úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Öll verkin eiga það sameiginlegt að hafa að geyma einhverskonar húmor en sumir myndu kannski spyrja; Hvað er svona fyndið?

Sýningin tekur fyrir snertifleti myndlistar og sjálfbærni þar sem spurningum er velt upp um hvernig hægt sé að rýna í myndlist og ræða sjálfbærni um leið.

Flökkusýning 2: #HérkemurErró

Á sýningunni #HérkemurErró er stiklað á stóru í ferli listamannsins Errós. Meira en 50 ár eru milli elstu og yngstu verkanna á sýningunni. Áhugavert er að sjá hvernig myndefni hans breytist með tímanum og endurspeglar samtímann hverju sinni. Áhrifa vélvæðingarinnar gætir til dæmis augljóslega í verkinu Meca-portret (1959), þar sem vélarpörtum hefur verið skeytt saman við andlit. Matarvíðátta (1974) er síðan augljós tilvitnun í neyslumenninguna. Nemendum gefst tækifæri til þess að taka beinan þátt í sýningunni með því að myllumerkja ljósmyndir sem að þau taka sjálf, #HérkemurErró, myndirnar birtast síðan á skjá og verða þannig hluti af einu verkanna. Sýningin er aðgengileg fyrir alla aldurshópa. 

Innihald beggja sýninga er að finna í fræðslupakka sem fylgir láninu. Hægt er að biðja um að fá fræðslupakkana senda fyrirfram. Kynning og lán er veitt grunnskólum Reykjavíkur endurgjaldslaust. Skólar annarra sveitarfélaga þurfa að greiða tryggingar og flutningskostnað. 

Í riti um grunnatriði safnastarfs eftir Ambrose og Paine (1998: 42–47) kemur fram að söfn gegni mikilvægu hlutverki á sviði fræðslu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Líflegustu söfnin láta sér ekki nægja að bíða eftir að fólk komi og heimsæki þau. Þau fara með þjónustu sína út í samfélagið.

Fyrirspurnir:fraedsludeild@reykjavik.is