Kjarval – Mynd af heild

21. desember 2012 – 20. maí 2013

Kjarvalsstaðir

Nokkur hundruð verk eftir Jóhannes S. Kjarval í eigu Listasafns Reykjavíkur hafa verið dregin fram í dagsljósið á sýningunni Mynd af heild sem var opnuð á Kjarvalsstöðum 21. desember 2012. Sýningin er í anda salon-sýninga, þar sem verkin þekja alla veggi Kjarvalssalarins, frá gólfi og upp í loft án nokkurrar reglu. Á sýningunni er lögð áhersla á óvænt samhengi verkanna, en þema, tímaskeið, viðfangsefni og tímaröð eru látin lönd og leið. Áhorfandinn nálgast verk Kjarvals án fyrirmæla og skyggnist inn í hugarheim hans á eigin forsendum.
Listasafn Reykjavíkur hefur leitast við að setja safneign Kjarvals fram á ólíkan máta, með þematengdum sýningum, yfirlitssýningum og samsýningum. Kjarvalssafneignin samanstendur af  5.392 verkum eftir listamanninn; 5.159 teikningum, 188 málverkum auk annarra tegunda verka. 

Kjarvalssafneignin
Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna árið 1968. Hluti gjafarinnar var sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt með tíð og tíma en bæði hafa verið keypt verk í safnið og því hefur einnig borist fjöldi ómetanlegra gjafa frá einstaklingum.

Kjarval
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) skipar sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar. Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamanns og bóhems. Rætur hans lágu í hinu íslenska bændasamfélagi en líf hans og listsköpun tengist menningarlegri viðreisn þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar órjúfandi böndum. Íslendingar hafa gegnum verk hans lært að skoða á nýjan hátt náttúru landsins, fólkið og þann ævintýraheim sem er að finna í landslaginu og í huga þjóðarinnar. Verkum Kjarvals hefur oft verið skipt í þrjá meginflokka: Landslagsmyndir, teikningar og táknræn málverk.

Prenta Til baka
Jóhannes Kjarval, Yndislegt er úti vor, 1926

Jóhannes Kjarval, Yndislegt er úti vor, 1926

 

 

Hafnarhús

Heimsókn í safnið
Opið: 10:00 - 17:00
fimmtudaga 10:00 - 20:00
 

Kjarvalsstaðir

Heimsókn í safnið
Opið: 10-17
 

Ásmundarsafn

Heimsókn í safnið
1. maí - 30. sept. 10-17
1. okt. - 30. apr. 13-17