Lúðurhljómur í skókassa - Gjörningar Magnúsar Pálssonar 1980 – 2013

18. maí – 1. sept. 2013

Hafnarhús

Magnús Pálsson hefur verið einn áhrifamesti listamaður hér á landi síðustu sex áratugi og hefur alla tíð starfað á mörkum leikhúss, tónlistar og myndlistar. Sem leikmyndahönnuður á 6. áratug síðustu aldar kom hann fram með annars konar formvitund og nútímalegri sýn á leikhúsið en íslenskir áhorfendur áttu að venjast. Hann deildi um nokkurra ára skeið vinnustofu í Reykjavík með listamanninum Dieter Roth og saman voru þeir leiðandi í miklum umbreytingum sem áttu sér stað í íslenskri myndlist á sjöunda og áttunda áratugnum. Magnús er þekktastur fyrir skúlptúra sem byggjast á gjörningum sem hann gerði á 8. áratug síðustu aldar en einnig fyrir aðra gjörninga sem hann hefur gert síðustu þrjá áratugi. Stærsta áhugamál hans og viðfangsefni margra verka eru hljóð og hrynjandi tungumálsins og hið rýmisbundna form þess, en leikur og grín eru aldrei víðs fjarri.

Listahátíð í Reykjavík og Listasafn Reykjavíkur standa saman að yfirlitssýningu á verkum Magnúsar í nánu samstarfi við hann sjálfan. Á sýningunni er hið skapandi tilraunarými á milli listgreina, eins og það hefur birst í gjörningum Magnúsar, gert lifandi og aðgengilegt fyrir áhorfendur. Hinir margvíslegu þræðir sem verk hans hverfast um eru endurtúlkaðir af tónskáldum, leikurum, myndlistarmönnum og listnemum. Sýningin var smám saman til fyrir augum áhorfenda vikuna 18. - 25. maí, samhliða því að fimm gjörningar Magnúsar voru endurfluttir í nýrri mynd og nýtt verk, Stuna, frumflutt.

Sýningarstjórar: Hanna Styrmisdóttir og Jón Proppé.

 

Upptökur frá málþingi um Magnús Pálsson 17.08.2013

Jón Proppé mp3 (lengd 21 min)

Balvina Sverrisdóttir (lengd 24 min)

Gunnar J. Árnason (lengd 34 min)

Kristján Steingrímur Jónsson (lengd 18 mín)

 

 

 

Tengt efni

Lúðurhljómur í skókassa - Goddur um gjörninga Magnúsar Pálssonar from Listahátíð í Reykjavík on Vimeo.


Lúðurhljómur í skókassa - Fríða Björk Ingvarsdóttir um Magnús Pálsson og bókmenntirnar from Listahátíð í Reykjavík on Vimeo.


Dagskrá

Allir viðburðir fara fram í Hafnarhúsinu, miðasala fer fram á www.miði.is og við innganginn.


Sprengd hljóðhimna vinstra megin / Stuna
Tveir gjörningar eftir Magnús Pálsson

Laugardag 18. maí kl. 14Sprengd hljóðhimna vinstra megin
var flutt á Litla sviði Þjóðleikhússins í samstarfi við Alþýðuleikhúsið árið 1991. Nú verður kafli úr verkinu fluttur af sömu leikendum, þeim Arnari Jónssyni, Guðrúnu S. Gísladóttur, Kristbjörgu Kjeld, Eddu Arnljótsdóttur, Stefáni Jónssyni, John Speight og Guðnýju Helgadóttur. Stjórnandi: Þórunn S. Þorgrímsdóttir.

Stuna er nýtt verk eftir Magnús Pálsson, byggt á ljóði Matthíasar Jochumssonar um Hallgrím Pétursson. Verkið er allt í senn, kórverk, innsetning, skúlptúr, hreyfanlegur skúlptúr og orgelverk, að hluta til byggt á orgelbúnaði. Leikstjórn, raddsetning og kórstjórn: Hörður Bragason. Leikmynd: Árni Páll Jóhannsson og Pétur Magnússon. Myndband og hljóð: Steinþór Birgisson. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Blásturstækni og orgeltónn: Björgvin Tómasson. Flytjendur: Íslenski hljóðkórinn (Nýlókórinn).

Verð 2.000 -kr.
 

Einsemd: Steypa
Gjörningur eftir Magnús Pálsson

Byggt á The Anti-Society League Concert frá 1980
20. maí  kl. 14.00Einsemd: steypa er nýtt verk, byggt á verkinu The Anti-Society League Concert frá árinu 1980. Þungarokkshljómsveitin MUCK heldur tónleika í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur en að tónleikunum loknum verður rýmið sem tónlist þeirra fyllti, steypt í gifs. Titill verksins vísar í lag MUCK, I Stand Alone. Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari, stýrir steypuverkinu.

Gjörningurinn eru hluti af sýningunni Lúðurhljómur í skókassa, sem er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Reykjavíkur.
„Hugsum okkur að við stöndum á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í miðri umferðarþvögunni, risastórri mynd þar sem hreyfingin og hljóðið kemur úr öllum áttum. Það er tröllsleg hljómkviða. Skiptandi umferðarljósin og gírskiptingar bílanna skapa
óviðjafnanlega hrynjandi.

Loki maður nú augunum stendur eftir hljómkviðan ein, nefnilega hljóðskúlptúr án myndar. Sin-fónían hættir ekki að vera skúlptúr þótt hún tapi hinum myndrænu eigindum því hljóðið eitt heldur öllum sínum strúktúr og víddum og heldur áfram að vera strúktúr í vitundinni. Hljóðskúlptúrinn. Það er ekki að ástæðulausu að hljóðtæknimenn tala um hljóðmynd.“  MP

Verð: 1.500 kr.
 

Hádegisspjall
Fimmtudag 23. maí kl. 12.15
Björn Roth tekur þátt í spjalli um Magnús Pálsson og samvinnu hans við Dieter Roth.
 
 
Ævintýr / Þrígaldur þursavænn
Tveir gjörningar eftir Magnús Pálsson

Fimmtudag 23. maí kl. 18Ævintýr
byggt á ítalskri þjóðsögu í endursögn Italo Calvino. Tónskáldin Atli Ingólfsson og Þráinn Hjálmarsson nálgast hér verkið út frá sjónarhóli tónlistarinnar sem fólgin er í tungumálinu og sem er rauður þráður í gjörningum Magnúsar. Flytjendur: Bergur Ingólfsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Sigurður Skúlason, Una Margrét Jónsdóttir. Tilreiðsla og leikstjórn: Atli Ingólfsson og Þráinn Hjálmarsson.

Þrígaldur þursavænn í útfærslu nemenda Listaháskóla Íslands. Stjórnandi: Ingibjörg Magnadóttir. Aðstoðarstjórnandi: Jóhanna Friðrika Sæmundardóttir.

Verð 2.000 -kr.
 

Kross
Útigjörningur eftir Magnús Pálsson

Laugardag 25. maí kl. 19.30
Lagt af stað frá Fríkirkjunni í ReykjavíkKross var fyrst fluttur árið 1996 í Hróarskeldu. Átta listamenn frá jafnmörgum löndum voru fengnir til að skipuleggja og leiða göngur hátíðargesta um borgina og fremja ýmsa gjörninga á leiðinni. Það kom í hlut Magnúsar að leiðsegja 250 manns um borgina. Verkið verður nú endurgert sem hluti af sýningunni Lúðurhljómur í skókassa og stýrt af Guðmundi Oddi Magnússyni og Daníel Björnssyni, með þátttöku meðlima úr Táknmálskórnum, meðal annarra. 
 
 
Sýningarstjóraspjall
Sunnudag 26. maí kl. 15
Hanna Styrmisdóttir, sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna.
 
Hádegisspjall
Fimmtudag 30. maí kl. 12.15
Jón Proppé, sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna.
 
 
Gjörningarnir eru hluti af sýningunni Lúðurhljómur í skókassa, sem er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Reykjavíkur.
Upplýsingar um viðburði á pdf formi má nálgast hér.  

 

 

 

Prenta Til baka
Lúðurhljómur í skókassa. Ljósmynd Rafael Pinho.

Lúðurhljómur í skókassa. Ljósmynd Rafael Pinho.

 

 

Hafnarhús

Heimsókn í safnið
Opið: 10:00 - 17:00
fimmtudaga 10:00 - 20:00
 

Kjarvalsstaðir

Heimsókn í safnið
Opið: 10-17
 

Ásmundarsafn

Heimsókn í safnið
1. maí - 30. sept. 10-17
1. okt. - 30. apr. 13-17